Viðskiptaskilmálar EFLU
Þessir almennu viðskiptaskilmálar gilda um alla þjónustu sem EFLA veitir viðskiptavinum, hverju nafni sem hún nefnist, óháð endurgjaldi.
Almennir viðskiptaskilmálar ráðgjafarþjónustu
Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda um þessa almennu viðskiptaskilmála:
- EFLA: EFLA hf.
- EFLU-aðilar: EFLA og hver og einn hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður, eftir því sem við á, og hver sú lögpersóna sem EFLA ræður yfir eða á. Einnig aðildarfyrirtæki EFLU, sem og hver og einn félagi þess aðila, hluthafi, meðlimur, stjórnarmaður, starfsmaður eða umboðsmaður, sem og undirverktakar eða hverjir þeir sem starfa á vegum EFLU, lögpersónu sem EFLA ræður yfir eða aðildarfyrirtækja EFLU.
- Verkefnateymi: Hópur starfsmanna EFLU eða á vegum EFLU, sem vinnur í viðkomandi verkefni og hefur aðgang að gögnum þess.
- Verksamningur: Skriflegur samningur um tiltekið afmarkað verk milli EFLU og viðskiptavinar.
- Þjónustusamningur: Skriflegur samningur um viðvarandi þjónustu, hvort sem er tímabundið eða ótímabundið milli EFLU og viðskiptavinar.
- Samkomulag um þjónustu: Samkomulag um verk eða þjónustu milli EFLU og viðskiptavina, staðfest með rafrænum hætti eða munnlega.
Hér eftir eru verksamningur, þjónustusamningur og samkomulag um þjónustu sameiginlega nefnd „samningur”.
Samningsgerð
1. Í ákveðnum tilvikum kann að vera gerður sérstakur verksamningur eða þjónustusamningur milli EFLU og viðskiptavinar. Í þessum samningum er skilgreind það verk eða sú þjónusta sem um er samið á milli EFLU og verkkaupa. Þessir almennu viðskiptaskilmálar skulu gilda um verk sem sérstaklega er samið um með þessum hætti. Komi fram misræmi milli verksamningsins/ þjónustusamningsins og almennra viðskiptaskilmála um tiltekin atriði skal verksamningurinn/þjónustusamningurinn gilda.
2. Hver liður eða skilmáli í samningnum og þessum almennu viðskiptaskilmálum er aðskilið og sjálfstætt ákvæði. Verði eitthvert ákvæði dæmt ógilt eða óframkvæmanlegt skulu önnur ákvæði halda fullu gildi og virkni að því marki sem landslög leyfa.
Þjónusta og skyldur EFLU
3. Öll þjónusta og öll verk sem EFLA vinnur í þágu viðskiptavinar verða innt af hendi svo vel og vandlega sem eðlilegt er að krefjast. EFLA tekur ekki ákvarðanir fyrir hönd stjórnenda viðskiptavinarins nema sérstaklega sé samið um slíkt og það valdi ekki hagsmunaárekstrum að neinu leyti.
4. Afurðir verkefnisins eru skilgreindar í samningi og eru aðeins gerðar í þágu verkkaupa nema samið sé sérstaklega um annað. Ef verkkaupi hyggst treysta á munnlega ráðgjöf sem kann að hafa verið veitt er það á hans ábyrgð nema EFLA veiti skriflega staðfestingu á viðkomandi ráðgjöf. Ekki ber heldur að treysta á drög að ráðgjöf, minnisblöðum, greinargerðum eða skýrslum eins og um lokaafurð væri að ræða.
5. EFLU er ekki skylt að uppfæra ráðgjöf, skýrslu eða aðrar afurðir þjónustunnar eftir verklok nema samið sé um slíkt sérstaklega.
6. Ef EFLA lætur í té ráðgjöf, mat eða spá sem hluta þjónustunnar felur það ekki í sér neins konar ábyrgð EFLU á því að spár, ágiskanir eða mat á líkindum er varða atvik eða aðstæður rætist í framtíðinni.
7. Óski verkkaupi sérstaklega eftir einstökum starfsmönnum og þeir jafnvel nefndir í verksamningi mun EFLA leitast við að tryggja að þeir vinni viðkomandi störf eftir því sem unnt er. EFLA áskilur sér þó rétt til að fela verkið öðrum jafnhæfum eða sambærilega hæfum starfsmönnum án sérstakrar heimildar frá verkkaupa.
8. Við framkvæmd verksins kann EFLA að verða áskynja um upplýsingar sem eru viðkvæmar fyrir starfsemi eða málefni verkkaupa („trúnaðarupplýsingar“). Við meðferð slíkra trúnaðarupplýsinga mun EFLA fylgja landslögum, stjórnvaldsreglum og öðrum ákvæðum um meðferð trúnaðarupplýsinga sem EFLU ber að fylgja.
Framangreind trúnaðarskylda á ekki við um upplýsingar sem hafa verið gerðar opinberar með lögmætum hætti eða án aðkomu EFLU eða sem skylt er að láta uppi samkvæmt lögum, stjórnvaldsreglum eða dómsúrskurði. EFLU er heimilt að láta uppi trúnaðarupplýsingar þegar nauðsyn krefur gagnvart vátryggingafélagi eða ráðgjöfum í tengslum við starfsábyrgðartryggingar EFLU, en það yrði einungis gert í trúnaði. Jafnframt kann að vera nauðsynlegt að láta trúnaðarupplýsingar í té öðrum EFLU-aðilum í tengslum við veitingu þjónustunnar samkvæmt verksamningnum.
EFLU er heimilt að nota og veita trúnaðarupplýsingar eftir því sem þörf krefur til annarra EFLU-aðila í því skyni að framkvæma innri áhættuathuganir á viðskiptavin og verkefni.
9. Öll meðferð EFLU á persónuupplýsingum er í samræmi við gildandi lög og persónuverndaryfirlýsingu EFLU á hverjum tíma. Persónuverndaryfirlýsing EFLU er aðgengileg á vefsíðu EFLU.
10. Í tengslum við markaðssetningu, auglýsingu eða sölu á þjónustu kann EFLA að vilja skýra frá því með almennum hætti að EFLA hafi unnið fyrir verkkaupa. Ekki yrði greint frá trúnaðar- eða persónuupplýsingum í því samhengi.
Umfang verks. Viðbótarverk
11. Hafi verið samið fyrirfram um afmörkun verks og/eða þóknunar ber viðskiptavinur ábyrgð á því að EFLU séu í upphafi látnar í té fullnægjandi upplýsingar og fyrirmæli til þess að unnt verði að inna verkið af hendi á þeim forsendum sem samningur aðila byggir á. Komi í ljós að skilgreint verk útheimti meiri vinnu/kostnað en upphaflega var gert ráð fyrir, vegna atriðia sem eru á ábyrgð viðskiptavinar, t.d. ef umfang verks reynist meira en veittar upplýsingar gáfu til kynna, fullnægjandi upplýsingar/fyrirmæli/ forsendur voru ekki veittar eða viðskiptavinur óskar eftir því að EFLA veiti meiri þjónustu eða þjónustu varðandi aðra þætti en upphaflega var gert ráð fyrir skal viðskiptavinur greiða sérstaklega fyrir aukna vinnu sem af þessu hlýst, auk alls útlagðs kostnaðar, samkvæmt gjaldskrá EFLU eða sérstöku samkomulagi á milli aðila.
Hugverka- og eignarréttur
12. Höfundarréttur og allur annar hugverkaréttur að afurðum þjónustunnar, hvort sem hún er veitt munnlega eða í efnislegu formi, skal haldast í eigu EFLU, svo og eignarréttur að vinnuskjölum EFLU. Verkkaupi öðlast eignarrétt að afurð þjónustunnar í efnislegu formi við greiðslu til EFLU fyrir afurðina. Í því skyni að veita verkkaupa og öðrum viðskiptavinum þjónustu er EFLA og öðrum EFLU-aðilum heimilt að nota, þróa og skiptast á þekkingu, reynslu og verkkunnáttu sem orðið hefur til við veitingu þjónustunnar. EFLU er heimilt að nýta almennar upplýsingar úr verkefninu í gagnagrunna sem EFLA á aðild að.
13. Séu gögn EFLU birt opinberlega skal það gert að höfðu samráði og er þá skylt að geta nafns EFLU.
14. Ef verkkaupi fer fram á að EFLA noti við veitingu þjónustunnar tæki, búnað, hugbúnað eða aðrar eignir í eigu verkkaupa eða sem hann hefur heimild til notkunar á, ber verkkaupi ábyrgð á að notkun þeirra henti fyrir veitingu þjónustunnar og brjóti ekki í bága við hugverkaréttindi eða önnur réttindi þriðja aðila.
Greiðslur til EFLU
15. EFLA gefur út reikninga fyrir veitta þjónustu, auk lögbundinna skatta og útlögðum kostnaði, í samræmi samning og/ eða gildandi verðskrá félagsins á hverjum tíma, eftir því sem við á.
16. Verkkaupa ber að greiða framlagða reikninga EFLU án frádráttar eða skuldajafnaðar, nema lög heimili annað. Gjalddagi er tilgreindur á reikningi og eindagi er 20 dögum eftir gjalddaga.
17. Ef reikningur er ekki greiddur á eindaga leggjast við ógreiddar fjárhæðir dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á grundvelli III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
18. Ef samningi er sagt upp eða felldur úr gildi tímabundið á EFLA rétt á að fá útlagðan kostnað fram að þeim tíma greiddan, sem og þóknun fyrir unna vinnu ásamt virðisaukaskatti fram að því er samningi er sagt upp auk vinnu við að ljúka eða slíta verkinu, eftir því sem við á.
19. Ef fleiri en einn aðili er verkkaupi ber hver verkkaupi um sig óskipta ábyrgð á greiðslum til EFLU nema um annað hafi verið samið.
20. Berist EFLU beiðni um gögn eða upplýsingar frá opinberum eftirlitsaðilum eða í tengslum við væntanlegt eða yfirstandandi dómsmál sem tengist þjónustunni og sem EFLA er ekki aðili að, greiðir verkkaupi EFLU kostnað sem hlýst af allri vinnu EFLU við að svara slíkri beiðni, samkvæmt gildandi gjaldskrá.
Skyldur verkkaupa
21. Verkkaupi ber ábyrgð á stjórn, starfsemi og rekstri fyrirtækis síns, sem og ákvörðunum um hvernig skuli nýta ráðgjöf og afurðir þeirrar þjónustu sem EFLA veitir og að hvaða marki verkkaupi vill byggja á þeim eða framkvæma þær. Einnig ber verkkaupi ábyrgð á ákvörðunum sínum sem hafa áhrif á þjónustuna, afurðir þjónustunnar og hagsmuni verkkaupa að öðru leyti.
22. Þegar verkkaupi fer fram á það eða þegar þjónustan er þess eðlis að hagkvæmara má telja að unnið verði í húsnæði og/eða rafrænu umhverfi verkkaupa, ber honum að gera fullnægjandi ráðstafanir varðandi aðgang, öryggi og vírusvarnir, jafnframt að aðstaða, leyfi og samþykki liggi fyrir eins og þörf kann að vera á, EFLU að kostnaðarlausu.
23. Verkkaupa er ekki heimilt að dreifa afurð EFLU í breyttri eða styttri mynd nema að fengnu skriflegu samþykki EFLU. Ef verkkaupi lætur af hendi einhverja afurð þjónustunnar, að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila, ber honum að tilkynna viðkomandi aðila skriflega eftirfarandi, nema sambærilegir fyrirvarar komi fram í afurðinni:
- Að vinna EFLU hafi verið unnin fyrir verkkaupa og eingöngu í hans þágu í samræmi við samningsákvæði.
- Afurðin hafi ekki verið ætluð til afnota fyrir aðra og að því marki sem lög framast leyfa taki EFLA enga fjárhagslega eða aðra ábyrgð gagnvart þriðja aðila í tengslum við þjónustuna eða afurðir hennar.
Upplýsingagjöf viðskiptavinar
24. Í því skyni að unnt verði að veita þjónustuna skal verkkaupi veita EFLU allar upplýsingar og aðstoð og fullan aðgang að gögnum í hans eigu, umsjá eða umráðum, svo og að starfsfólki sem hann hefur yfir að segja. Verkkaupi skal eftir fremsta megni leitast við að útvega framangreint þótt það sé ekki í hans eigu, umsjón eða yfirráðum. Verkkaupi skal láta EFLU í té vitneskju og skýra frá atvikum sem hann kann að verða áskynja um og kunna að varða þjónustuna.
25. EFLU er heimilt að byggja á munnlegum eða skriflegum fyrirmælum, beiðnum, tilkynningum og upplýsingum frá hverjum þeim sem EFLA veit eða hefur rökstudda ástæðu til að ætla að hafi heimild verkkaupa til að eiga samskipti við EFLU í tengslum við þjónustuna.
26. Samskipti EFLU og verkkaupa geta farið fram með rafrænum hætti, svo fremi að verkkaupi sætti sig við að bera ábyrgð á þeirri áhættu sem slíkum samskiptum fylgir og að því tilskildu að verkkaupi viðhafi fullnægjandi vírusvarnir. Verkkaupi ber ábyrgð á öryggi upplýsinga í vörslu hans, þar á meðal á gögnum í hans vörslu sem koma frá EFLU.
27. EFLA ber ekki ábyrgð gagnvart verkkaupa á tapi eða tjóni hans sem stafar af sviksamlegu atferli, rangfærslum, þögn eða aðgerðarleysi varðandi atriði sem varða þjónustuna eða öðrum ágöllum á veittum upplýsingum, hvort sem þeir eru sök verkkaupa eða annarra upplýsingagjafa, nema hið sviksamlega atferli, rangfærslan, þögnin eða ágallinn hafi verið bersýnilega augljós EFLU án frekari athugunar.
28. Aðgreining er milli verkefnateyma og takmörkun á aðgangi að gögnum um verkefni hjá EFLU sé þess óskað. Verkkaupi skal ekki ætlast til þess af verkefnateymi að það skýri verkkaupa frá upplýsingum sem trúnaður ríkir um gagnvart öðrum viðskiptavinum, hvort sem þær eru kunnar þeim eða öðrum verkefnateymum eða EFLU-aðilum.
29. EFLA kann að veita þjónustu, eða vera beðið um að veita þjónustu, öðrum aðila eða aðilum sem hafa hagsmuna að gæta eða keppa við hagsmuni verkkaupa eða eru þeim andstæðir („andstæðir aðilar“). EFLA er og skal áfram vera frjálst að veita andstæðum aðilum þjónustu, en séu hagsmunir andstæðs aðila sérstaklega og beinlínis andstæðir hagsmunum verkkaupa hvað snertir efni þjónustunnar skal verkefnateymið ekki veita andstæða aðilanum þá þjónustu. Önnur verkefnateymi eða EFLU-aðilar skulu aðeins veita andstæðum aðila þjónustu ef viðeigandi aðgreining er til staðar, s.s. með aðskilnaði verkefnateyma og aðgangsstýringu gagna. Aðgreining skal fela í sér að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til að fyrirbyggja raunhæfa hættu á að trúnaðarskylda EFLU gagnvart verkkaupa verði brotin.
Eftirgjöf, framsal og undirverktakar
30. Ef einhver þeirra sem fellur undir skilgreiningu á vegum EFLU eða EFLU- aðila neytir eða beitir ekki rétti sem hann á, skal það ekki talið fela í sér eftirgjöf á neinum rétti þeirra.
31. Hvorki EFLA né verkkaupi mega framselja til annars aðila þau réttindi eða þær skyldur sem af samningi leiðir nema hinn aðilinn hafi veitt til þess skriflegt samþykki.
32. EFLA kann að telja þörf á að tilnefna undirverktaka til aðstoðar við að veita þjónustuna og skal tilkynna verkkaupa um hverjir þeir undirverktakar eru og hvert þeirra hlutverk er. Þegar undirverktaki kemur að verkefninu í hvaða tilgangi sem er, skal litið svo á að verk undirverktakans sé hluti þjónustunnar.
Takmörkun ábyrgðar
33. EFLA ber skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar á beinu tjóni viðskiptamanns. Sönnunarbyrði um skaðabótaábyrgð félagsins hvílir á þeim sem heldur því fram að félagið beri ábyrgð.Heildarábyrgð hvers EFLU-aðila sem tekur þátt í veitingu þjónustunnar og þeirra allra gagnvart verkkaupa og öðrum rétthöfum, hvernig sem hún er til komin eða á hvaða grundvelli sem er, skal vera takmörkuð við fjárhæð sem nemur tvöfaldri þeirri þóknun sem greiða ber EFLU samkvæmt samkomulagi eða verksamningi þó aldrei hærri en sem nemur 500.000 sinnum Byggingarvísitala á grunni 2010 sem gefin er út af Hagstofu Íslands. Í verkefnum þar sem EFLA tekur að sér hlutverk byggingarstjóra takmarkast ábyrgð EFLU við hámark tryggingarverndar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Takmörkun á ábyrgð á þó ekki við um tjón sem EFLA kann að valda af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Ef aðilar samningsins og aðrir sem rétt kunna að eiga á afurð þjónustunnar eru fleiri en einn, skulu þeir skipta á milli sín þeirri takmörkuðu bótafjárhæð sem fallist er á skv. þessari grein. Bætur til verkkaupa skal lækka eða þær felldar niður ef sannað er að verkkaupi eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis. Auk þess ber verkkaupa í öllum tilvikum að takmarka tjón sitt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
34. Verkkaupi og aðrir rétthafar skulu ekki hafa uppi kröfur gegn neinum öðrum EFLU-aðila en viðsemjanda vegna taps eða tjóns verkkaupa eða annars rétthafa sem stafar af þjónustunni eða stendur í tengslum við hana.
35. Ábyrgð EFLU gagnvart verkkaupa eða öðrum rétthafa fellur niður ef tjón stafar af gáleysi, yfirsjón, ásetningi, sviksemi, blekkingum eða öðru sambærilegu af hálfu verkkaupa eða starfsmanna hans.
36. Verkkaupa ber að halda EFLU og öðrum EFLU-aðilum skaðlausum og bæta, endurgreiða og vernda gegn hverju því tapi, tjóni, útgjöldum eða ábyrgð sem þessir aðilar verða fyrir, sem verður vegna eða í tengslum við eftirfarandi aðstæður:
- Hvers konar brot verkkaupa gegn skyldum sínum samkvæmt samningi og hvers kyns kröfur sem þriðji aðili eða annar rétthafi gerir eða hótar að gera og leiða af, orsakast af eða tengjast slíku broti, eða
- Hvers konar afhendingu verkkaupa á afurðum þjónustu EFLU, í hluta eða heild, til þriðja aðila án þess að getið hafi verið um þá fyrirvara sem fjallað er um í grein 19 í þessum viðskiptaskilmálum, að því er varðar ráðgjöf sem eingöngu er veitt í þágu verkkaupa.
Tímamörk krafna
37. Krafa verkkaupa eða annars rétthafa vegna taps eða tjóns er orsakast eða leiðir af samningi eða tengist honum, skal sett fram án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi áður en liðnir eru 10 dagar frá því viðskiptavinur vissi eða mátti vita um tjónið. Krafan skal vera skrifleg og í tilkynningu um hana skal koma skýrt fram um hvaða þjónustu var að ræða, á hvaða grundvelli krafan er reist og fjárhæð kröfu ef kostur er. Sé ekki tilkunnt um tjón samkvæmt framansögðu skal réttur viðskiptamanns til þess að krefja EFLU um bætur vegna atviksins falla niður sökum tómlætis. Allar kröfur á hendur EFLU falla niður sökum fyrningar innan eins árs frá þeim degi er viðkomandi þjónusta var innt af hendi.
Uppsögn, riftun o.fl.
38. Sérhver aðili samnings getur hvenær sem er sagt honum upp með fyrirframgefinni skriflegri tilkynningu til hins aðilans með 30 daga fyrirvara. Aðili samningsins getur rift samningnum fyrirvaralaust ef sýnt er fram á verulegar vanefndir eða ef aðili uppfyllir ekki skyldur sínar og verður ekki við áskorun um að bæta úr innan þriggja daga. Riftun er einnig heimil ef breytingar verða á lögum, reglum eða stöðlum sem leiða til þess að EFLU er óheimilt að veita þjónustuna. Uppsögn eða riftun samkvæmt þessum lið hefur ekki áhrif á nein réttindi sem aðili kann að hafa öðlast áður en uppsögnin eða riftunin á sér stað, og allt það fé sem greiða ber EFLU samkvæmt samningnum skal að fullu verða gjaldkræft þegar uppsögn eða riftun kemur til framkvæmdar.
39. Ákvæði þessara almennu viðskiptaskilmála skulu gilda áfram þó samningur renni út, honum sé sagt upp eða rift, eftir því sem við getur átt, einkum ákvæði er lúta að trúnaðarskyldu, varðveislu og notkun upplýsinga, hugverka- og eignarrétti, greiðslum fyrir veitta þjónustu, dreifingu afurða EFLU, eftirgjöf og framsali, takmörkun ábyrgðar, tímamörkum krafna, force majeure, umboði og lögsögu og varnarþingi.
Force Majeure
40. Hvorugur aðili skal talinn hafa vanefnt samning eða bera ábyrgð á töfum tengdum skyldum aðilanna við framkvæmd þjónustunnar samkvæmt samningnum vegna óviðráðanlegra ytri atvika sem þeim verður af sanngirni ekki kennt um. Hvor aðili um sig skal þó tilkynna hinum án tafar um slík atvik og gera það sem í hans valdi stendur til að sjá til þess að staðið verði við umsamin ákvæði.
Umboð
41. Með því að gangast undir samning við EFLU staðfestir viðskiptavinur að hann hafi kynnt sér efni þessara almennu viðkskiptaskilmála, samþykkir gildi þeirra um viðskiptasamband EFLU og viðskiptavinar og og skuldbindur sig til þess að hlíta þeim.
42. Verkkaupi samþykkir og fellst á ákvæði samnings og almennu viðskiptaskilmálanna fyrir sína hönd og annarra rétthafa eftir því sem við getur átt. Verkkaupi ábyrgist að sá sem undirritar verksamning/ þjónustusamning fyrir hans hönd hafi umboð til þess að skuldbinda verkkaupa.
43. Sá sem undirritar samning fyrir hönd EFLU ber ábyrgð á samskiptum við verkkaupa varðandi framkvæmd þjónustunnar.
Lögsaga og varnarþing
44. Samningur við verkkaupa eða almennu viðskiptaskilmálarnir skulu ekki í neinum atriðum hefta EFLU eða starfsmann sem starfar hjá EFLU við að uppfylla hvers konar skyldur eða skuldbindingar sem kveðið er á um í íslenskum lögum.
45. Um verksamninginn og almennu viðskiptaskilmálana gilda íslensk lög og skal vísa ágreiningi þeim tengdum til Héraðsdóms Reykjavíkur náist ekki samkomulag milli aðila.