Varaði við því að verða kynslóðin sem klúðraði

10.04.2025

Fréttir
Maður á uppstilltri mynd.

Erindi Reynir Sævarsson, fyrirliði teymis viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU.

Reynir Sævarsson, fyrirliði teymis viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU og formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV), hélt erindi á Degi verkfræðinnar þann 28. mars. Þar fór hann yfir stöðu og þróun íslenska ráðgjafarverkfræðigeirans, tæplega aldarlanga sögu hans og áskoranir framtíðarinnar.

Nýting þekkingar og reynslu

Reynir talaði í erindi sínu um þá miklu innviðaskuld sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Samkvæmt nýlegri skýrslu FRV og Samtaka iðnaðarins nemur innviðaskuldin um 680 milljörðum króna. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að bæta ástand innviða og hraða orkuskiptum, áður en Ísland glatar forystuhlutverki sínu á því sviði. „Við verðum að breyta þessu og forðast að verða kynslóðin sem klúðraði,“ sagði Reynir.

Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi úthýsingar verkfræðistarfsemi opinberra aðila til sjálfstæðra verkfræðistofa, sem hafi skapað umtalsverð verðmæti í gegnum bætt vinnuflæði og nýtingu þekkingar og reynslu. Hann benti þó jafnframt á að opinberir aðilar þurfi að búa yfir nægilegri tækni- og verkfræðilegri þekkingu til að tryggja að verkefni gangi hratt og vel fyrir sig.

Reynir ræddi jákvæða þróun í flutningi verkfræðistarfa út á land, þar sem fjarvinna og fjarfundir hafa rutt úr vegi mörgum fyrri hindrunum. Með tilkomu þessara breytinga hafa verkfræðistofur átt auðveldara með að þjónusta fjölbreytta atvinnuvegi um land allt. Það á ekki síst við um orkugeirann, ferðaþjónustuna og sjávarútveginn.

Í erindinu kom einnig fram að ráðgjafarverkfræðigeirinn hefur tekið hröðum framförum með tilkomu nýrrar tækni og stafrænnar þróunar. Með gervigreind í farvatninu standa miklar breytingar fyrir dyrum en einnig óvissa.