Laugardaginn 22. mars fór fram Píeta-hlaupið og í þetta skiptið var hlaupið við og í kringum Vífilsstaðavatn. Viðburðurinn, sem er orðinn að árlegri hefð, er tileinkaður Píeta-samtökunum og vakin er athygli á mikilvægu starfi þeirra. Börkur Reykjalín Brynjarsson, starfsmaður EFLU, hefur verið drifkrafturinn á bakvið hlaupið frá upphafi.
Mesta upphæðin til þessa
„Þetta er fimmta árið sem hlaupið er haldið og það hefur verið með mismunandi sniði. Fyrstu þrjú skiptin hlupum við á hlaupabraut. Í fyrra færðum við okkur í Himnastigann í Kópavogi og nú var hlaupið við Vífilsstaðavatn,“ segir Börkur um þróun hlaupsins.
Viðburðurinn var vel sóttur í ár. „Þetta gekk mjög vel og við söfnuðum yfir 1,7 milljónum króna, sem er mesta upphæðin sem hefur safnast hingað til. Sjóvá styrkti okkur um 500 þúsund krónur. Um 500 manns mættu og það var alveg magnað,“ segir Börkur og þakkar öllum sem lögðu sitt af mörkum.

Hugmyndir fyrir næsta ár
Píeta hlaupið er ekki formlega á vegum Píeta-samtakanna, en starfsemi þeirra er að stórum hluta fjármögnuð með styrktarfé og söfnunum sem þessum. „Þetta hlaup er bara hugmynd sem ég fékk þegar mig langaði að láta eitthvað gott leiða af mér,“ útskýrir Börkur. „Samtökin eru fjármögnuð að 80% af styrktarfé, þannig að allar svona söfnunarleiðir skipta miklu máli.“
Framtíðin lítur vel út fyrir hlaupið og Börkur hefur þegar hugmyndir um næsta ár. „Á næsta ári verða Píeta samtökin 10 ára og ég reikna með að gera hlaupið enn stærra til að safna enn meira fé. Samtökin vantar nýtt húsnæði þar sem núverandi húsnæði er ónothæft vegna myglu, þannig að söfnunin skiptir enn meira máli nú en áður.“
Hægt er að kynna sér Píeta-samtökin nánar á vefsíðu samtakanna.
- 1 / 8
- 2 / 8
- 3 / 8
- 4 / 8
- 5 / 8
- 6 / 8
- 7 / 8
- 8 / 8