Hagur Íslands, hátt eða lágt raforkuverð?

13.11.2024

Blogg
Mastur séð frá jörðu og upp í loft

Í þessari grein verður reynt að svara þeirri spurningu hvort það sé betra fyrir íslenskt samfélag að raforkuverð sé hátt eða lágt? Til að geta svarað spurningunni þarf að átta sig á hvernig íslenski raforkumarkaðurinn er.

Raforkulög

Hlutverk Alþingis er að setja leikreglur samfélagsins. Á árinu 2003 voru samþykkt lög sem skiptu raforkukerfinu í fernt; það er vinnsla, flutningur, dreifing og sala, sjá mynd 1. Flutningur og dreifing eru sérleyfisstarfsemi sem er m.a. undir eftirliti Orkustofnunar sem fylgist með tekjuramma fyrirtækjanna. Vinnsla og sala eru á samkeppnismarkaði og þar gilda almenn samkeppnislög. Við gerð laganna breyttust skyldur Landsvirkjunar sem áður tryggði nægjanlega raforkuvinnslu til að anna heildar raforkuþörf markaðarins. Lögin skylda engan einn aðila að tryggja nægjanlegt raforkuframboð, þannig geta skapast þær aðstæður að búið sé að selja meiri raforku en framboð raforku er á einhverjum tíma. Með setningu laganna var reiknað með að markaðurinn myndi að sjá til þess að reisa nýjar virkjanir ef raforkuþörfin myndi aukast. Það hefur ekki gerst sem skyldi og er ein skýring á því þær tafir sem hafa orðið á afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun og öðrum leyfisveitingum vegna framkvæmda. Rammaáætlun var hugsuð til að sætta mismunandi sjónarmið um vernd og orkunýtingu og til að skoða málin á sem breiðustum grundvelli, hún flokkar virkjunarkosti og raðar þeim í verndunarflokk, biðflokk og nýtingarflokk.

Tafla.

MYND 1 Orkuflæði í raforkukerfi landsins á árinu 2023. Allar tölur er orka í TWst. Heimildir: Orkustofnun, Landsnet og EFLA.

Vinnslufyrirtæki

Raforkuvinnsla landsins var rúmlega 20 TWst á síðasta ári. Það eru tvö fyrirtæki í eigu almennings, Landsvirkjun og Orka Náttúrunnar sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem framleiddu til samans um 90% af raforkunni árið 2023. Landsvirkjun er stærsta vinnslufyrirtækið og framleiddi um 14,7 TWst og hefur einnig yfir að ráða mestu afli í kerfinu sem getur annað breytilegri aflþörf kerfisins. Orka Náttúrunnar framleiddi um 3,5 TWst raforku, einkafyrirtækið HS orka um 1,3 TWst og aðrir vinnsluaðilar um 0,7 TWst.

Notkun raforkunnar

Um 80% af raforkuvinnslunni, um 16 TWst, fer til stórnotenda sem gera langtímasamninga um sína notkun og eru lengstu samningar til allt að 40 ára, en þeir geta verið styttri, jafnvel aðeins fáein ár. Oftast eru þessir samningar trúnaðarmál og raforkuverð ekki gefið upp. Almennur markaður, þ. e. heimili og önnur fyrirtæki en stórnotendur, notar um 4 TWst. Heimili landsins nota um 1 TWst.

Það eru 5 fyrirtæki sem framleiða og selja raforku til almennings það eru Orka Náttúrunnar, Orkusalan, HS Orka, Orkubú Vestfjarða og Fallorka. Fjögur fyrirtæki hafa komið inn á markaðinn á síðustu árum sem eru ekki með eigin framleiðslu og eru því einungis endursöluaðilar raforku. Það eru fyrirtækin N1, Straumlind, Orka heimilanna og Atlantsorka. Þau þurfa því að kaupa raforku á raforkumarkaði eða beint af þeim aðilum sem framleiða raforku.

Verðlagning raforkunnar

Verð til stórnotenda getur haft tengingu við markaðsverð vöru, t.d. álverð, eða verði á raforku á mörkuðum eins og Nordpool. Gegnum árin þá hefur raforkuverð til stórnotenda verið lægra en til almennings og hafa rökin meðal annars verið sú að notkun þeirra sé stöðug og jöfn yfir allt árið, þ.e. eru með háan nýtingartíma. Á heildsölumarkaði hefur Landsvirkjun verið ráðandi varðandi verðlagningu raforkunnar og hefur hún selt raforku til flest allra raforkusala á markaðnum.

Samningar á almennum markaði eru oftast til eins árs. Fram til ársins 2024 seldi Landsvirkjun raforku beint til söluaðila á heildsölumarkaði, en í ár hefur Landsvirkjun selt grunnorku, mánaðarblokkir og stundarrafmagn gegnum markað Vonarskarðs. Þar geta vinnslufyrirtæki setti inn verðtilboð og söluaðilar á almennum markaði inn kauptilboð. Vonarskarð hóf starfsemi sína í apríl og hefur verðið í þessum uppboðum farið hækkandi, sem má m.a. skýra að það stafi af takmörkuðu framboði.

Hagvöxtur og raforkuframleiðsla

Það hefur verið sýnt fram á að tengsl eru á milli hagvaxtar í samfélögum og raforkuvinnslu. Eftir því sem raforkuvinnslan er meiri hefur hagvöxtur verið meiri. Því mætti draga þá ályktun að raforkuverð ætti að vera lágt, þar sem það gæti stuðlað að aukinni notkun á raforku og þar með auknum hagvexti í samfélaginu. Samkvæmt lögmáli um framboð og eftirspurn, þá hækkar verð á vöru ef framboð hennar er takmarkað. Ef raforkuvinnsla er takmörkuð ætti það að stuðla að hærra raforkuverði.

Nýting auðlinda

Gæði náttúrunnar er takmörkuð. Virkjanir eru oft á tíðum umdeildar, hér má benda á umræðu um Kárahnjúkavirkjun og friðun Gullfoss á sínum tíma. Þegar um 80% raforkunotkunar er „útflutningsvara” (fer að stærstum hluta í álvinnslu), mætti draga þá ályktun að hagur Íslands væri hærra raforkuverð, en það eru einhver efri mörk á raforkuverði sem stórnotendur eru tilbúnir að greiða fyrir raforkuna. Hér gæti raforkuverið einnig haft áhrif á samkeppnishæfni Ísland við önnur lönd sem bjóða endurnýjanlega raforku.

Niðurstaða

Til að fá rétt eða eðlilegt verð á raforku ætti hún að vera seld á markaði sem væri bæði fyrir almennan markað og stórnotendur, sem þýðir að draga verður úr vægi langtímasamninga stórnotenda. Með virkum markaði gætu sölufyrirtæki á almennum markaði fengið að kaupa raforku í samkeppni við stórnotendur. Aðilar á markaði gætu síðan selt þá raforku sem þeir nýta ekki.

Við fyrstu sýn þá er svarið við spurningunni ekki einfalt. Ef við trúum því að markaðslausnir eigi að finna rétt verð á raforkuna, mun verðið taka mið af markaðsaðstæðum og er það væntanlega hærra en verðlagning sem tekur mið af fjárfestingar- og rekstrarkostnaði virkjana að viðbættum viðunandi arðsemiskröfu.