Greining á kolefnisspori drykkjarumbúða

14.04.2025

Fréttir
Appelsín dósir.

Ölgerðin fól EFLU að reikna út kolefnisspor mismunandi umbúðategunda fyrir drykkjarvörur fyrirtækisins. Með greiningu EFLU fékk Ölgerðin skýra mynd af umhverfisáhrifum umbúða sinna, sem nýtist við stefnumótun, þróun vöruframboðs og ákvarðanir um umhverfismál.

Traust gögn og viðurkennd aðferðafræði

EFLA framkvæmdi útreikningana með aðferð vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment, LCA), þar sem litið er til alls lífsferils umbúðanna. Ferillinn var skoðaður allt frá hráefnavinnslu og framleiðslu, til flutnings, notkunar og endaloka þegar umbúðir eru endurunnar, brenndar eða urðaðar. Slík greining gefur fyrirtækjum dýrmæta innsýn í áhrif virðiskeðjunnar og hvar mestum áhrifum má ná með breytingum.

Verkefnið byggði á fyrri útreikningum frá árinu 2020 en var nú uppfært með nýjustu upplýsingum um drykkjarumbúðir hjá Ölgerðinni, þróun í endurvinnslu og nýjustu gögnum um kolefnisspor hráefna og flutninga. Meðal breytinga á sl. 5 árum eru léttari og vistvænni PET-plastumbúðir með hærra hlutfalli endurunnins plasts (rPET), nýjar tegundir áldósa og betri endurvinnsla innanlands og erlendis.

Helstu niðurstöður

Greiningin leiddi í ljós að:

  • Áldósir reyndust með lægsta kolefnissporið miðað við gler og plastflöskur, sérstaklega að teknu tilliti til ávinnings endurvinnslu.
  • Glerflöskur hafa hæsta kolefnissporið, meðal annars vegna þyngdar þeirra og flutninga erlendis.
  • Plastflöskur með hátt hlutfall rPET draga verulega úr kolefnisspori. Með 100% rPET lækkar spor plastflösku um allt að 42% og verður í sumum tilfellum lægra en hjá áldósum.
  • Flutningar skipta miklu máli, sérstaklega fyrir glerflöskur þar sem flutningur til og frá Íslandi hefur stórt vægi í heildarsporinu.
  • Endurvinnsla er lykilatriði: Ávinningurinn af endurvinnslu er mestur hjá áldósum, og EFLA mælir með að framleiðendur setji sér markmið um hátt hlutfall endurunnins efnis í sínar umbúðir.

Ábyrg stefnumótun byggð á vísindalegum gögnum

Við útreikninga EFLU er ekki aðeins hægt að meta einstakar umbúðategundir heldur greina hvar í virðiskeðjunni mesta losunin á sér stað – og hvernig hægt er að draga úr henni. Slík greining nýtist vel við þróun umhverfisvænnar vöru, innkaupastefnu og til upplýsingagjafar um sjálfbærni.

Verkefnið með Ölgerðinni er dæmi um hvernig tækni, greining og stefnumótun geta unnið saman að raunverulegum framförum í átt að hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi, en Ölgerðin hefur stigið metnaðarfull skref á undanförnum árum í átt að meiri samfélagsábyrgð og sjálfbærni, öðrum fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi til eftirbreytni.

Collab dósir.