Endurskoðað aðalskipulag Borgarbyggðar

11.11.2024

Fréttir
Kona stendur úti í á með veiðistöng.

Starfsfólk EFLU hefur aðstoðað sveitarfélagið við endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar fyrir árin 2025-2037 með það að markmiði að mæta aukinni íbúafjölgun, ört vaxandi ferðaþjónustu og nýjum áskorunum í loftslagsmálum og landnýtingu. Í lok október voru haldnir þrír kynningarfundir í sveitarfélaginu þar sem farið var yfir helstu atriði í vinnslutillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi.

Heildstæð nálgun fyrir sjálfbæra framtíðaruppbyggingu

Nýja aðalskipulagið nær yfir öll svæði sveitarfélagsins, bæði á landi og sjó, og inniheldur ítarlega greinargerð, umhverfismatsskýrslu og uppdrætti fyrir bæði dreifbýli og þéttbýli. Í skipulagsferlinu var m.a. lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu, byggða á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, samgönguáætlun, vatnaáætlun og stefnu Borgarbyggðar í loftslagsmálum.

Í nýja skipulaginu eru Borgarnes og nærliggjandi svæði áfram útnefnd sem aðalþéttbýliskjarni sveitarfélagsins. Sérstök áhersla hefur verið lögð á stefnu um nýja íbúðarbyggð vestan við Borgarvog og skipulag fyrir frístundabyggð, sem þróuð verður í áföngum. Landbúnaðarlandinu hefur verið skipt í flokka út frá ræktunargæðum. Mikilvægt ræktunarland verður verndað til að styðja við innlenda matvælaframleiðslu.

Á á fjöllum.

Ferðaþjónusta og iðnaðaruppbygging í takt við náttúruvernd

Ferðaþjónusta fær einnig aukið vægi í nýju aðalskipulagi, þar sem skilgreind hafa verið svæði fyrir tjaldstæði, gististaði og áningarstaði fyrir ferðamenn. Þróun miðbæjar Borgarness er skipulögð til að auka þjónustuframboð bæði fyrir íbúa og ferðamenn. Þessu er ætlað að efla staðinn sem miðstöð þjónustustarfsemi og vera með iðandi samfélag í miðbæ.

Iðnaður og orkumál

Í iðnaðar- og orkumálum er hugað að leyfum fyrir smávirkjanir í vatns- og vindorku með það að markmiði að gæta að umhverfisvernd. Lögð er fram tillaga um tvær nýjar vatnsaflsvirkjanir sem eru í undirbúningi, staðsettar í Hvítá og Geitá. Engin vindorkuver eru leyfð samkvæmt vinnslutillögunni.

Árfarvegur.

Grunnkerfi

Lögð er áhersla á bættar samgöngutengingar með áframhaldandi stefnu um að færa hringveginn austur fyrir Borgarnes og endurbætur á Uxahryggjavegi. Skipulagið styður við viðhald tengivega, orkuskipti og uppbyggingu útivistarleiða. Veitukerfi sveitarfélagsins verður endurbætt til að tryggja hreint neysluvatn, öfluga hitaveitu og gott fjarskiptasamband.

Náttúruvernd og loftslagsaðgerðir í nýju aðalskipulagi

Áhersla er lögð á náttúruvernd og loftslagsaðgerðir, þar á meðal friðlýsingu Borgarvogs og að forðast rask á votlendi ásamt því að hvetja til skógræktar til kolefnisbindingar. Náttúruvá eins og sjávarflóð og gróðureldar eru til umfjöllunar í skipulaginu, til að tryggja öruggt umhverfi fyrir framtíðina.

Tré, á og klettar.