EFLA fór með sigur af hólmi í Lífshlaupinu 2025 í flokki vinnustaða með 400-799 starfsmenn – bæði hvað varðar flesta daga og flestar mínútur. Þátttaka starfsfólks EFLU var gríðarlega góð og sýndi það einstaka samheldni starfsfólksins.
Öflug liðsheild hjá EFLU
Lífshlaupið er árlegt hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands þar sem landsmenn eru hvattir til að huga að daglegri hreyfingu. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing eykur vellíðan, styrkir líkamann og dregur úr líkum á ýmsum sjúkdómum. Markmið keppninnar er ekki aðeins að safna mínútum heldur líka að virkja sem flesta til þátttöku.
Á vinnustöðum skiptir samheldni miklu máli og það sannaðist í Lífshlaupinu. EFLA hvatti starfsfólk til að hreyfa sig saman og nýta tækifærið til að taka stutta göngutúra, ganga upp stigana í staðinn fyrir að nota lyftuna eða æfa saman. Hvort sem um var að ræða hlaupara, skíðaiðkendur, fjallgöngufólk eða þá sem tóku sér göngutúr í hádeginu, þá lagði hvert einasta skref sitt af mörkum til sigursins.
Sigurinn í Lífshlaupinu 2025 er frábær vitnisburður um metnað, samvinnu og kraft starfsfólks EFLU. Við stefnum á að halda áfram á þessari braut og vonumst til að sjá enn fleiri taka þátt á næsta ári.
Meðfylgjandi eru myndir af hluta af starfsfólki sem tók þátt í Lífshlaupinu.
- 1 / 7
- 2 / 7
- 3 / 7
- 4 / 7
- 5 / 7
- 6 / 7
- 7 / 7