EFLA sá um verkfræðihönnun á byggingu Landsbankans við Reykjastræti sem hlaut steinsteypuverðlaun Steinsteypufélags Íslands í síðustu viku. Guðrún Jónsdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd EFLU.
Framúrskarandi notkun steinsteypu
Steinsteypuverðlaunin eru veitt mannvirkjum sem skara fram úr í notkun steinsteypu, bæði hvað varðar arkitektúr, verkfræðilegar lausnir, gæði efnisins og handverks. Dómnefnd metur einnig frumleika, gæði og samhengi byggingar við umhverfi sitt.
Bygging Landsbankans er glæsilegt dæmi um hvernig steinsteypa getur sameinað styrk, fegurð og notagildi. Hönnun hússins byggir á íslenskri náttúru, þar sem innblástur er sóttur í gjár, stuðlaberg og lárétt berglög.
Steinsteypa sem lykilatriði í hönnun
Bygging Landsbankans var hönnuð af Nordic Office of Architecture og C.F. Møller eftir samkeppni um hönnun þess. Verkefnið var unnið í samstarfi við sterka aðila í byggingariðnaði þar sem ÞG Verk sá um uppsteypu og Íslenskir aðalverktakar sáu um fullnaðarfrágang. Umsjónaraðili verkkaupa var VSB. Framkvæmdir hófust árið 2018 og þeim lauk árið 2023.
Í byggingunni gegnir steinsteypa lykilhlutverki, bæði í burðarvirki og sem útlitsefni. Að utan er húsið klætt með blágrýti úr Hrepphólanámu, en að innan er stölluð sjónsteypa og mynstursteyptar veggir sem endurspegla íslenskt klettalandslag. Forsteypt stigaþrep og gróðurkassar líkja eftir berglögum, sem skapar einstaka tengingu við íslenska náttúru.
EFLA er stolt af því að hafa komið að þessu metnaðarfulla verkefni sem sýnir vel hvernig steinsteypa getur verið lykilefni í framúrskarandi byggingarlist og verkfræði.
Við óskum öllum sem komu að verkefninu innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Verðlaunaafhending Hermann Hermannsson, Landsbankinn, Helgi Mar Hallgrímsson, Nordic Office of Architecture, Jonas Toft Lehmann, C.F. Möller, Þóroddur Ottesen, ÍAV, Guðrún Jónsdóttir, EFLA, Gísli Valdimarsson, VSB, Þorvaldur Gissurarson, ÞG Verk, og Helgi Már Veigarsson, BM Vallá.