Auka þarf innlenda raforkuvinnslu

14.11.2024

Fréttir
Tvær konur og karl stilla sér upp á sviði eftir fund.

Opinn fundur Guðmundur Þorbjörnsson, viðskiptaþróun EFLU, og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, ásamt Þóru Arnórsdóttur, frá Landsvirkjun.

Til að ná fram markmiðum Íslands um orkuskipti með innlendri orku þarf að stórauka innlenda raforkuvinnslu. Þetta kom fram í kynningu Ágústu Loftsdóttur, sérfræðings hjá EFLU, og Hauks Ásbergs Hilmarssonar, sérfræðings hjá Landsvirkjun, á opnum fundi um orkuskipti sem haldinn var í Hörpu í dag, fimmtudag.

Orkunotkun meiri en orkuframleiðsla

Þar var áætlað að 5 teravattstundir af viðbótarorku verði nauðsynlegar fyrir orkuskipti til ársins 2035 og allt að 16 teravattstundir fyrir full orkuskipti. Þetta mun krefjast fjölþætts undirbúnings og umfangsmikilla framkvæmda.

Ísland er í 22. sæti á heimsvísu yfir orkuframleiðslu á mann en er í fyrsta sæti þegar kemur að framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Þrátt fyrir það er orkunotkun íslenskra heimila hærri en á hinum Norðurlöndunum, einkum vegna mikillar nýtingar jarðvarma til húshitunar. Samhliða því eru um 0,6% af landi Íslands nýtt til orkuvinnslu og tilheyrandi innviða, sem er hlutfallslega lítið miðað við önnur Norðurlönd. Uppsett afl á ferkílómetra á Íslandi er einungis 0,03 MW/km², lægsta hlutfallið á Norðurlöndunum.

Hagkvæm orkuskipti með opinberum stuðningi

Auk framleiðslu þurfa orkuskipti að vera hagkvæm fyrir almenning og atvinnulíf, með hvötum og stuðningi frá stjórnvöldum. Alþjóðaorkumálastofnunin bendir á að áttfalda þurfi endurnýjanlega orkuvinnslu á heimsvísu fyrir árið 2050 til að mæta kröfum orkuskipta. Fyrir Ísland þýðir þetta að nýjar lausnir og tækni verði að þróast áfram en kostnaður og hagkvæmni mismunandi orkugjafa skiptir þar lykilmáli.

Ef Ísland nær markmiðum sínum í orkuskiptum mun öll orkunotkun landsins verða endurnýjanleg, sem skiptir sköpum fyrir kolefnishlutleysi landsins og minnkun samfélagslosunar. Fari svo að markmiðin náist ekki gæti landið þurft að fjárfesta í losunarheimildum sem gætu kostað 1-10 milljarða króna árlega.

Mikill efnahagslegur ávinningur af orkuskiptum

Greining EFLU, sem uppfærð var árið 2024, sýnir að efnahagslegur ávinningur Íslands af fullum orkuskiptum getur numið allt að 1.700 milljörðum króna fram til ársins 2060. Þetta jafngildir kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins í rúmlega fimm ár. Heildarfjárfesting í orkuskiptunum gæti numið um 900 milljörðum króna, sem samsvarar byggingu níu nýrra Landspítala.

Orkuskiptin munu einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 88 milljónir tonna CO2 ígilda, en það er metið á yfir 500 milljarða króna. Aðgerðir á sviði orkuskipta, líkt og rafvæðing og hitaveituvæðing fyrri tíma, hafa ítrekað sýnt fram á aukin lífsgæði og hagnað fyrir íslenskt samfélag.

Hreinna loft og bætt lífskjör

Með fullum orkuskiptum hefur Ísland tækifæri til að verða fyrsta land heimsins sem notar eingöngu endurnýjanlega orku. Eins og staðan er í dag notar landið um milljón tonn af innfluttri olíu á ári, sem kostar um 160 milljarða króna. Olían er helsta áskorunin, þar sem hún er óendurnýjanlegur orkugjafi og veldur losun gróðurhúsalofttegunda, sem dregur úr umhverfislegum ávinningi af endurnýjanlegum auðlindum landsins, eins og jarðhita og vatnsafli.

Orkuskiptin eru því nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands og efla orkuöryggi og sjálfbærni. Þau munu leiða til hreinna lofts og bæta lífskjör í landinu.

Nánari upplýsingar um þetta má finna á vefnum orkuskipti.is.